AÐRAR VÖRUR
2.5.2010 - Flugan.is - Sérverslun fluguveiðimannsins á netinu

Ýtt úr vör.


Þakka þér fyrir að heimsækja nýja fluguveiðiverslun á netinu.

Flugan.is á sér nokkurn aðdraganda en lénið var skráð í maí árið 2000.  Af og til allar götur síðan þá hafa aðstandendur verslunarinnar áformað að opna sérstaka fluguverslun á netinu og nú er það loks orðið að veruleika.

Eigendur netverslunarinnar Flugan.is eru Ólafur Vigfússon, María Anna Clausen, Egill Daði, Andri og Vigfús Ólafssynir en þau María og Ólafur hafa einnig rekið verslunina Veiðihornið síðan 1998 og Sportbúðina síðan 2007.

Netverslunin Flugan.is leggur áherslu á gott úrval af vönduðum og veiðnum flugum á hagstæðu verði en einnig úrval af ýmsu smálegu tengdu fluguveiði svo sem taumaefni, flugubox, flugulínur, hjól, og fleira.

Áratuga reynsla eigenda af fluguveiði og veiðileiðsögn ásamt áralangri þjónustu við innlenda og erlenda veiðimenn tryggir að flugurnar hér eru einhverjar þær sterkustu og best hnýttu sem völ er á.  Flestar flugur hér eru hnýttar eftir okkar forskrift, hnýttar hjá traustum framleiðendum, undir ströngu gæðaeftirlitii.  Aðrar flugur eru keyptar staðlaðar en þar er helst átt við silungavotflugur og þurrflugur.

Flestar þær flugur sem þú sérð hér í sérverslun fluguveiðimannsins á netinu eru einnig fáanlegar í Veiðihorninu Síðumúla 8.

Í byrjun maí, þegar þessar línur eru skrifaðar, er fluguúrval sumarsins ekki fullkomnað.  Nýjar flugur eiga eftir að bætast við úrvalið jafnt og þétt en einnig ýmsar aðrar vörur.

Flugan.is mun kynna nokkrar skemmtilegar nýjungar sem greint verður frá eftir því sem tíminn líður.  Sumar nýjungarnar eru þó sýnilegar strax.  Fyrst skal nefna lifandi netspjall en okkur vitanlega hafa engar íslenskar vefverslanir opnað á þennan skemmtilega möguleika fyrr en nú.   Meðal annarra nýjunga sem sjást hér eru uppskriftir fyrir þá sem vilja hnýta sjálfir.  Nú þegar hefur verið settur inn fjöldi uppskrifta og mun þeim fjölga jafnt og þétt. 
Þá verður hægt að nálgast hér ýmsan fróðleik um veiðitækni, hnúta, meðferð búnaðar og fleira.  Það er því rétt að "leggja við hlustir" og fylgjast með frá byrjun.

Við vonum að litla flugubúðin okkar hér gagnist fluguveiðimönnum þar sem við höfum lagt upp með að allt pantanaferli sé sem einfaldast og vöruflokkar ekki of margir.  Þá vonum við að þú hafir gaman af og upplýsingar og fróðleikur sem þú hefur aðgang að hér gagnist þér á bakkanum og við fluguhnýtingar.

Að endingu fullyrðum við að þeir sem kaupa flugurnar sínar hér í Flugunni veiða meira.  Jú, þær eru svo ódýrar að þú getur keypt fleiri veiðileyfi.

Góða skemmtun.

 

Deila |


Til baka

www.flugan.is - Netverslun fluguveiðimannsins - flugan@flugan.is